img_1395Best geymdu leyndarmál tískuborgarinnar:

París er risastór tískusýning þar sem allir eru chic. Þetta var fyrsta orðið sem ég lærði við komuna til Parísar og þýðir að vera smart. Sú sem er chic er samt miklu meira en bara smart. Hún hefur kærulaust viðhorf til tískunnar, eltir hana aldrei heldur býr hana til sjálf. Þegar ég bjó í París var það oft á góðum dögum að ég sleikti búðargluggana í borginni og lét mig dreyma um gífurlegan kaupmátt eða töfraveski sem í spryttu seðlarnir eins og arfi í rigningu. Fljótlega uppgötvaði ég að vel mátti gera góð kaup á ódýrum tískuvarningi hjá H&M og C&A. Síðan mátti blanda þessu saman við einstaka dýra merkjavöru, veski eða skó. Stundum var ég þó hissa að sjá extravagant klæðaburð franskra vina minna. Þeir virtust eyða stórum fúlgum, ef ekki mánaðarkaupinu í tískufatnað. Hvernig var þetta hægt? Ein vinkona átti til dæmis fjórar yfirhafnir frá Dior og tvær frá Chanel. Það kom að því einn daginn að hún leysti frá skjóðunni og gubbaði út úr sér: Depôt-vente!

Já, það eru búðir sem selja notaðar merkjavörur í umboðssölu; föt, skó og fylgihluti. Hingað koma allar fínu frúrnar og selja af sér spjarirnar sem þær eru hættar að nota. Eins það sem þær vilja ekki nota. Já, til dæmis dýrar gjafir frá fyrrverandi elskhugum. Í París er mannlífsflóran svo litrík að það þykir bara í fínasta lagi að eiga opinberlega elskhuga. Ekki er verra ef þeir hlaða á þig dýrum gjöfum. Þær alsniðugustu geta þá losað sig við þetta í depôt-vente búðunum og haft eitthvað upp úr því í alvöru annað en hjartasorg.img_13421

Í fyrsta skipti sem ég kom inn í depôt-vente búð, vissi ég eiginlega ekki hvar ég var lent. Tilfinningin var einstök – fundið var gull!!! Þetta var í lítilli götu í rue des Quatre Vents í sjötta hverfi Parísar. Afgreiðslukonan var fúllynd og feit en góssið var mjög flott. Ég rak strax augun í gamalt Chanel armband sem hafði örugglega verið utan á forsíðu franska Vogue nokkrum dögum fyrr. Líklega var þetta gömul týpa af armbandinu sem hafði etv verið sett aftur í framleiðslu.

img_1363Því fylgir líka sérstök tilfinning að versla í depôt-vente búðum. Búðirnar eru eins og fíni fataskápurinn hennar ömmu, fullur af heimsins fallegustu fötum. Hér er má finna öll fallegustu merkin; YSL, Jean-Paul Gaultier, Versace, D&G, Prada, Armani, einstaka Louis Vuitton, Dior og svo mætti lengi áfram telja. Það er freistandi að borga minna fyrir meira. Í depôt-vente búðum má oft detta niður á vel falda fjársjóði á kostakjörum. Stundum eru þó vörurnar mjög dýrar, eins og til dæmis Chanel eða Gucci töskur sem hafa söfnunargildi og hækka í verði með árunum. Úrvalið er mikið en það fer í raun eftir því hvað skvísurnar í París hafa viljað losa sig við. Það er í takti við tísku liðinna ára og svo fer það auðvitað eftir misdýrum smekk elskhuganna! Elskar hann þig nógu mikið til að splæsa í fjólubláu Dior kápuna?*

… og bara svona ef þú átt leið til Parísar….

Depôt-Vente de Buci-Bourbon

6 rue de Bourbon-le-Château

75006 Paris. s: 01 4634 45 05

img_1348