Ég hef voðalega gaman af alls konar húsráðum fyrir útlitið eins og að setja matarsóda á tennurnar, egg í hárið og svona. Það fer ekki hjá því að stundum velti ég því fyrir mér hverjum datt þetta fyrst í hug og hvernig það vildi til. Spurning hvort einhver hafi verið grýttur með eggjum og séð þá að hárið glansaði á eftir sem aldrei fyrr?

Hér eru ráð við þrútnum eða bólgnum augum, sem svo margir kannast við. Auðvitað er svefn algjört lykilatriði þegar kemur að þrota í kringum augun og eins mataræði því saltur og kryddaður matur veldur vökvasöfnun í líkamanum. Oft sjáum við myndir af konum með gúrkusneiðar á augunum  í auglýsingum fyrir spa og snyrtistofur og það er ástæða fyrir því þar sem gúrkan dregur úr þrotanum. Þannig að ef maður vaknar með þrútin augu þá er gott að gefa sér um fimm mínútur með gúrkusneiðar á augnlokunum.

Annað ráð við þrota í kringum augun er að nota tepoka með svörtu tei, bleyta þá með köldu vatni og leggja á augun. Ágætt er að þrýsta létt á pokana svo þeir snerti sem mest af augnsvæðinu og bíða svo í tíu mínútur meðan þrotinn minnkar.

Ef þú borðar mikið saltan eða kryddaðan mat er líka gott ráð að sofa með hátt undir höfðinu svo vökvasöfnun verði ekki í andlitinu.

Auðvitað eru til alls konar krem sem draga úr þrota í kringum augun en þetta eru samt voða skemmtileg ráð og kosta nánast ekkert. Bara gaman.