Roberto Cavalli vor - sumar 2009
Roberto Cavalli vor - sumar 2009

Roberto Cavalli sem er einn af þekktustu hönnuðum heims skipulagði sjálfur feril sinn og spáði fyirir um eigin velgengni. Óhætt er að segja að hann eigi fyllilega skilið þá hylli sem hann nýtur í dag.

Roberto Cavalli fæddist árið 1940 í Flórens á Ítalíu. Á áttunda áratugnum hlaut hann alþjóðlega viðurkenningu fyrir afburðasnjalla hönnun og var það upphafið að glæstum starfsferli hans. Hin framúrskarandi hönnun Roberto Cavallis var frumsýnd í Cote d’azur St. Tropez á tískusýningu þar sem hin unga Birgitte Bardot gekk berfætt inn á sviðið og klæddist fötum sem hönnuð voru af honum.
Cavalli er stoltur og fylginn sér og neitaði allt frá byrjun að beygja sig fyrir boðum og bönnum tískuheimsins. Hann kaus heldur að fara sínar eigin leiðir og vera utangarðsmaður til að verja sköpunargáfu sína fyrir þeim sem þóttust best vita hvernig hlutirnir ættu að vera hannaðir.

Í byrjun níunda áratugarins kom Roberto Cavalli fram með nýja tískulínu dyggilega studdur af eiginkonu sinni, hinni fögru Evu Duringer, fyrrum Ungfrú alheimi. Hún sannfærði hann um að fara með tískulínuna sína til Milano Collezioni og á þann hátt varð hann hluti af ítalska tískuheiminum án þess þó að láta af sérvisku sinni.
Í gegnum tíðina hefur nafn Cavallis stöðugt vaxið og nú er hægt að fá gífurlegt úrval af vörum sem hann hefur hannað. Má þar nefna dömu og herrafatnað, undirföt, gleraugu, úr, barnaföt fyrir 4-14 ára, skó, húsgagnalínu og Roberto Cavalli ilmvötn.

Roberto Cavalli hefur orð á sér fyrir að vera félagslyndur og fjörugur en nokkuð kaldhæðinn að eðlisfari. Hann er lika sagður mikill herramaður og annálaður gestgjafi enda heldur hann vinum sínum veislur af minnsta tilefni eins og Tuscanbúar eru þekktir fyrir.
Roberto Cavalli hefur alla tíð verið innblástur fyrir þotuliðið og hafa stórstjörnurnar tekið honum opnum örmum og veitt honum styrk og stuðning. Hann rekur kaffihús og matsölustaði þar sem ítalskar og alþjóðlegar stjörnur hafa vanið komur sínar, stjörnur á borð við Lenny Krawitz, Jennifer Lopez, Beyonce Knowles, Beckham hjónin, Madonnu, Halle Berry, Tyru Banks, Drew Barrymore, Alicia Keys, Nelly Furtado, Rihanna, Paolina Rubio, Britney Spears, Cindy Crawford, Bon Jovi, Bono úr U2, Anthony Hopkins og Sting.