Ég fór í Laugar í morgun og rakst þar á hana Maríu sem er gömul kunningjakona mín. Við röbbuðum saman meðan hún málaði sig og auðvitað fylgdist pjattrófan ég rosa vel með öllu. Sá t.d. að hún notaði Lancomé sólarpúður sem kom vel út. En rúsínan í pylsuendanum var þegar María tók upp dós af Nivea kremi og setti í hárið á sér. Hún er með krullað og þykkt hár. Sagði að þetta væri það besta fyrir svona krullukoll en að hún notaði samt annað í toppinn, sem er sléttur.

Mér fannst þetta bráðskemmtilegt. “Til hvers að borga 3000 kr fyrir gel þegar þú getur borgað 300 kall fyrir Nivea sem gerir það sama?!” sagði María hress meðan hún lagaði hárið.

Ráð þetta fékk hún víst frá hárgreiðslumanni sem hefur prófað sitthvað til að eiga við krullukolla. Hún sagði líka að Nivea handaáburður svínvirkaði í þessu máli.

Mér fannst þetta skemmtilegt. Það kemur alltaf eitthvað gott þegar fólk hugsar svona út fyrir rammann og er óhrætt við að prófa sig áfram. Þannig að ef þú ert með krullur… þá er kannski Nivea-krem bara gott mál? Þú ferð allavega ekki á hausinn við að prófa.