Vegur vindsins – Buen Camino, eftir Ásu Marín Hafsteinsdóttur, er saga um Jakobs veginn.
Elísa ákveður að skella sér í göngu þegar hún fær fréttir sem hræða hana mikið. Hún þarf að hugsa sinn gang og finna út hvernig hún vill hafa framtíðina.
Á göngunni er hún ein með hugsunum sínum dag eftir dag og á kvöldin hittir hún aðra pílagríma og kemst að því að fólk hefur ýmsar ástæður fyrir því að fara í slíka göngu.
Sumum hreinlega leiðist meðan aðrir eru í heilunarferð. En hver sem ástæðan er þá tekur ferðin sinn toll.
Hún kemst líka að því að rétt eins og annarstaðar þá er stigskipting meðal pílagrímanna. Litið er niður á þá sem fara trússferðir meðan þeir sem bera allt sitt eru efstir í virðingarstiganum.
Elísu gæti ekki verið meira sama en hún lætur heimamann ferja töskuna sína milli staða og gengur bara með lítinn göngubakpoka.
Hugsar málin á göngunni, lítur yfir farinn veg
Elísa hugsar ýmis mál meðan hún gengur; um samband sitt við foreldra og ömmu, um sambandið við unga kærastann sem hún hálfskammast sín fyrir… en er samt alltaf að hugsa um (og hann hugsar mjög vel um hana).
Hún hittir skemmtilegt fólk og hrífandi og einnig fólk sem er ekki eins hrífandi eða bara hreinlega leiðinlegt.
Það gerist ekkert rosalega mikið í bókinni og ekki hægt að skrifa neinn langan pistil um hana en fyrir þá eða þær sem langar að fara þessa göngu þá er þetta fín lesning. Það er greinlegt á lýsingunum að höfundur hefur sjálf farið þessa göngu. Fyrir mig var þetta eins og innspýting í að fara að undirbúa svona ferð. Fyrir áhugasamar þá er hér viðtal við Ásu á VB.is
Niðurstaða: Ef þig langar að skella þér í þessa göngu þá er þetta flott bók til að undirbúa aðeins ferðina.
Þrjár og hálf [usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.