BÆKUR: Fram hjá – Ótrúverðug sálarkreppa hjá leiðinlegri konu

BÆKUR: Fram hjá – Ótrúverðug sálarkreppa hjá leiðinlegri konu

Essbaum-jill alexanderNýlega kom út bókin Fram hjá eftir Jill Alexander Essbaum. Höfundur er bókmenntaprófessor sem hefur gefið út nokkrar ljóðabækur en þetta er fyrsta skáldsagan í fullri lengd.

FramhjaFram hjá fjallar um Önnu, bandaríska konu sem býr með svissneskum eiginmanni og þremur börnum í Sviss.

Hún hefur búið þar í nærri 10 ár og finnst hún enn hálf utangátta. Henni leiðist og til þess að fá spennu í lífið og tilveruna fer hún að halda framhjá manni sínum. Jahá svona er nú það?!

Rolast áfram og á enga vini

Ég verð að viðurkenna að ég náði engum tengslum við hana Önnu nöfnu mína.

Hún einhvern veginn rolast áfram, lærir ekki tungumálið (af því allir tala hvorteðer ensku), eignast enga vini, á engin áhugamál og veit ekki við hvað maðurinn hennar starfar annað en hann vinnur í banka!

Hvernig er þetta hægt? Ég spyr, hvernig er hægt að búa í einhverju landi í 10 ár og eignast enga vini og læra lítið sem ekkert í tungumálinu? Sýna engan lit eða áhuga á neinu. Gjörsamlega fyrir utan minn skilning!

Pirrandi týpa sem sefur hjá vegna leiðinda

Síðan pikkar einhver í hana og býður henni að fara með sér í rúmið, auðvitað segir hún já, er hægt að segja eitthvað annað?

Og sá næsti pikkar í hana og aftur segir hún já, af því bara. Vá hvað þetta pirraði mig. Það var ekki einu sinni eins og hana langaði neitt í þessa elskhuga, heldur frekar bara svona að hún lenti í þessu ef það má orða það þannig. Hún gengur til geðlæknis af því maðurinn hennar heldur að það þurfi að laga hana eitthvað og þá fer hún auðvitað til læknis.

Geðlæknirinn talar á heimspekilegum nótum og ég hefði skipt ef þetta hefði verið minn læknir. Algjörlega. Þegar Anna þarfnast hennar sem mest, hvað gerir læknirinn þá? Hellir yfir hana skömmum fyrir að gera ekki boð á undan sér og segir henni að hringja í bráðavaktina  ef hún þurfi bráða læknisþjónustu.

Segir bara já og flytur til Sviss

Það er ýjað að einhverju furðulegu sambandi hennar við foreldra sína sem dóu í bílslysi þegar hún var rétt um tvítugt en maður er engu nær. Bruno hinn svissneski biður hennar af því honum finnst eins og hún myndi passa honum, hún hefur enga sérstaka skoðun á því og segir því bara já og flytur með honum til Sviss. Einhvern veginn var ég alltaf að bíða eftir því að hann væri  hrotti því hún var alltaf að passa sig á að misbjóða honum ekki því hann gæti reiðst. Ég var því alltaf að spá í því hvers vegna hún væri alltaf að gefa hitt og þetta í skyn sem enginn fótur virtist fyrir.

Eða kannski var ég bara að misskilja hana?

Niðurstaða: Þessi bók náði mér sem sagt ekki. Þess ber þó að geta að mér fannst hún ágætlega skrifuð og ef nafna mín, hún Anna, væri örlítið áhugaverðari persóna þá er ég viss um að þetta væri hin ágætasta bók.

Mér fannst samræður hennar og geðlæknisins frekar skemmtilegar í upphafi en þegar ég sá að þær leiddu ekki til neins þá fór gamanið að grána. Niðurstaðan er eiginlega sú að Anna náði engan veginn til mín, hún pirraði mig meira eða minna alla bókina. En kápan finnst mér skemmtileg, sérstaklega þegar ég fattaði að þetta eru ekki blóm eins og ég hélt fyrst.

Tvær og hálf stjarna 2.5 out of 5 stars (2,5 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest