BÆKUR: Nýlenda A0-4 – Forvitnileg íslensk vísindaskáldsaga

BÆKUR: Nýlenda A0-4 – Forvitnileg íslensk vísindaskáldsaga

Petur_Haukur_JohannessonPétur Haukur Jóhannesson er rithöfundur sem nýlega gaf út sína fyrstu bók, Nýlenda A0-4.  Hann gaf hana út á eigin vegum eftir að hafa safnað fyrir útgáfunni á Karolina Fund.

Þetta er vísindaskáldsaga sem gerist á plánetu úti í geimnum árið 2190. Geimskipið Freki er á leið til plánetunnar Jodess með vistir handa íbúum þar.

Ferðin tekur venjulega 30 daga en þegar Freki lendir á Jodess bíða þeirra óblíðar móttökur og ýmislegt hefur breyst.

Kannski verður fólk svona eftir 200 ár?

Þetta er fín saga. Ber þess aðeins merki að vera fyrsta bók höfundar en hún hélt mér alveg og mér fannst hún spennandi. Persónurnar eru frekar hráar en í rauninni gerir það ekki neitt til. Kannski verður fólk svona eftir 200 ár, hvað veit ég? Bardagaatriðin voru sannfærandi að mínu mati og ég sá geimskipin alveg fyrir mér.

Ákveðin atriði mætti þó laga. Í fyrsta lagi, nafnið á bókinni. Þetta nafn er ekkert freistandi. Ég var búin að sjá hana í búðum í smá tíma en nafnið höfðaði ekki til mín. Minnir dálítið á lyfjabókina, svona eins og stytting á einhverri formúlu.

Annað atriði er textinn og blaðsíðurnar. Hann er mjög þéttur og letrið í minna lagi þannig að það er frekar óþægilegt að lesa bókina.

Þetta ætti að vera auðvelt að laga einfaldlega með því að breyta um letur og láta það flæða aðeins. Bókin yrði aðeins lengri við það en það er allt í lagi, þar sem hún er ekki óeðlilega löng.

Ranylendansismi sem átti ekki við persónuna

Eitt var það þó í lestrinum sem virkilega stuðaði mig. Kannski stuðar það ekki aðra, kannski er það bara bakgrunnur minn sem þarna grípur inn í? ég veit það ekki en þetta er þegar Ewin (aðalpersónan) finnur fólkið í borginni og bregst við með rasískum hætti og hugsunum sem ég áttaði mig ekki á.

Mér fannst þetta bara ekki passa og þetta stuðaði mig. Sagan hefði ekki breyst neitt þó þetta hefði verið fellt út. Það er hægt að koma með neikvæðar athugasemdir án þess að þær séu rasískar.

Auk þess fannst mér þetta ekki passa við persónu Ewins og hreinlega gera hann barnalegan. Hann er frekar passífur alla söguna þar til þetta skýtur upp kollinum og það er ekki skýrt neitt frekar af hverju hann lætur svona. Ég hefði sleppt þessu þar sem þetta gerði ekkert fyrir söguþráðinn.

Niðurstaða: Fín fyrsta bók höfundar og vonandi á hann eftir að skrifa meira. Mætti þó huga betur að framsetningunni og flæði textans þannig að auðveldara verði að lesa bókina. Síðast og ekki síst velja titil sem selur. Þrjár stjörnur því sagan er fín þó þessir ákveðnu hlutir hafi stuðað mig og mætti að mínu mati alveg sleppa.

Þrjár stjörnur 3 out of 5 stars (3 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest