Nýársheit fyrir góða heilsu er gott að gera. Þú kannast þó kannski við að hafa sett þér góð markmið sem hafa kannski mistekist?
Með því að hafa markmiðin raunhæf getur þú náð þeim og fengið nýjan lífsstíl sem þú ert sátt við til frambúðar. Og ef þú nærð að tileinka þér aga þá ertu sátt við sjálfa þig. Agi byrjar oft með kvöð sem breytist síðan í ánægju. Hafðu hugfast að erfitt er ekki endilega það sama og leiðinlegt 😉
Þessi 10 atriði geta hjálpað þér af stað.
1. Vertu raunsæ
Með því að setja markmiðin of háleit þá er næstum öruggt að þér mistakist. T.d. ef þú ætlar aldrei aftur að borða uppáhalds matinn þinn ?
2. Undirbúningur
Vertu búin að undirbúa heitin þín, ekki gera í hendingu. Hugsaðu málið vandlega áður en þú setur það niður á blað. Er þetta gerlegt miðað við aðrar skyldur? Hvernig ætlar þú að hafa þetta?
3. Nei takk
Búðu þig undir að geta staðist freistingar og vertu sterkari en púkinn sem ætlar að hafa áhrif á að þú sleppir æfingu. Æfðu jákvæða hugsun.
4. Hvað er gott og hvað er slæmt?
Haltu lista um kosti og galla þess að sinna heilsunni, kostirnir verða alltaf fleiri! Farðu yfir listann þinn reglulega.
5. Segðu frá því sem þú ert að gera
Deildu þínum markmiðum með fleirum, þá færðu meiri stuðning og meiri líkur á að þú standist þau.
6. Verðlaun
…þegar þú átt það skilið, ný æfingaföt eða gott nudd eru verðlaun sem þú færð fyrir að ná þínum árangri.
7. Mælingar
Fylgstu vel með framförum þínum, skráðu niður mælingar, haltu matardagbók. Þegar árangur er sýnilegur á blaði þá færðu enn meiri hvatningu.
8. Ekki bugast og hætta við
Þú skalt ekki tala þig niður þó svo einhver dagur sé glataður. Gerðu þitt besta hvern dag og taktu einn dag í einu.
9. Þolinmæði
Árangurinn gerist ekki á einni nóttu. Þú verður að vera þolinmóð. Sérfræðingar tala um 21 dag til að gera endurtekningu að venju, 6 mánuði til að verða hluti af þínum venjum. Þetta krefst þolinmæði og þrautseigju.
10. Róa sig og halda svo áfram
Ef þú heldur að þú sért alveg að gefast upp, skaltu sýna sjálfri þér umburðarlyndi, gefðu þér 24 klst og gerðu það sem þú vilt, hvort sem það er að liggja í sófanum og borða pizzu eða eitthvað annað sem fer gegn markmiðunum.
Þú munt komast aftur á réttu brautina þína sem þú vilt vera á og halda áfram á henni. 2016 verður frábært ár fyrir heilsuna!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.