Desember er fyrir marga einn erfiðasti mánuður ársins þegar kemur að heilsurækt.
Margir eru rosalega agaðir og duglegir yfir árið, missa nokkur kíló, auka við vöðvamassann og líður ansi hreint vel. En svo kemur 1. desember og allt í einu vill fólk taka sér ‚„pásu‘‘ því það sér ekki fyrir sér hægt sé að vera heilsusamlegur í þessum mánuði.
Eftir áramót fær maður svo að heyra allt um hversu agalega erfiður mánuðurinn var…..allt stressið og öll jólaboðin, allur þessi matur, konfektið og gómsætu smákökurnar. Allur árangurinn sem náðist á árinu fer í vaskinn á einum mánuði.
Ég hef starfað sem einkaþjálfari í mörg ár og hef heyrt þessar sögur og séð þetta sama mynstur ár eftir ár. En er með góðar fréttir, það er hægt að halda sér í formi á aðventunni og yfir hátíðirnar og ég skal segja þér hvernig:
1. Hollt mataræði
Veldu mataræði sem er bæði hollt og gott og reyndu að fylgja því eins vel og þú getur.
2. Matardagbók
Það er mjög gott að skrá niður allt sem þú borðar svo þú náir að halda þér við efnið. Ég kýs að nota app sem heitir ‘MyFitnessPal’.
3. Regluleg hreyfing
Reyndu að hreyfa þig eitthvað á hverjum degi. Þú getur til dæmis skellt þér í ræktina eða gert æfingar heima í stofu, farið í göngutúr með fjölskyldunni eða jafnvel út að skokka.
4. Eitt ‚„svindlkvöld‘‘ í viku
Það er ekki hægt að ætlast til þess að þú sért með mataræðið 100% alla daga vikunar og það er bara gott að eiga einn dag í viku þar sem þú getur leyft þér eina ‘svindlmáltíð’, smá nammi eða eftirrétt.
Það er ekki heilög regla að svindla á laugardögum.
Ef þér er boðið á Jólahlaðborð á þriðjudegi þá getur þú nýtt svindlkvöldið þitt í það. Aðfangadagskvöld er upplagt fyrir svindmáltíð og gamlárskvöld, en það er ráðlegt að hafa allavega 5 daga á milli svindlmáltíða.
5. Sæktu innblástur frá fyrirmyndum á samfélagsmiðlum
Að eiga fyrirmyndir getur hjálpað þér að halda þig við efnið en þær má til dæmis finna á facebook, instagram eða snapchat. Hér eru nokkrar góðar sem ég fylgist með:
Christina Fjære frá Noregi
Alexandra Bring frá Svíþjóð
Ashley Kaltwasser frá Bandaríkjunum.
6. Taktu einn dag í einu
Mottóið út mánuðinn er: „Einn dagur í einu‘‘ og þú gerir alltaf þitt allra besta dag hvern <3
7. Haltu stressinu niðri
Desembermánuður getur verið mjög stressandi og þess vegna er mikilvægt að þú finnir einhverja leið til að halda streitunni niðri. Ég mæli með því að þú takir stutta hugleiðslu á hverjum degi. Þegar þú hugleiðir skaltu minna þig á að þú er dýrmæt sköpun og að þú átt skilið að vera bæði líkamlega og andlega heilbrigð/ur. Minntu þig á, að sama hvaða vandamál eða verkefni kemur upp á yfir daginn, það er alltaf hægt að finna lausn. Aðventan og jólin eru tíminn til að gleðjast með fjölskyldu þinni og vinum. Munum að sýna hvort öðru kærleika og ást og látum ekki óþarfa stress eyðileggja þær stundir.
8. Fáðu stuðning
Það getur verið mjög gott að eiga einhvern að sem leiðbeinir þér og hjálpar í gegnum þennan mánuð sem getur reynst svo erfiður. Finndu einhvern sem þú treystir fyrir þér, til dæmis vin eða fjölskyldumeðlim, einkaþjálfarann þinn, lækni eða sálfræðing og þeir sem eru í 12 spora samtökum geta tjáð sig og sótt sér styrk til félaganna þar.
9. Mundu eftir vatninu, vítamínum og fæðubótarefnum
Það er mjög mikilvægt að drekka nóg af vatni yfir daginn og ekki gleyma að taka inn nauðsynleg vítamín og hugsanlega fæðubótarefni, ef með þarf.
Ég mæli með fjölvítamíni, Magnesíum og Omega-3, Glútamíni, C og D vítamínum. Ef þú ert með einhvern sérstakan vítamínskort eða skort á steinefnum þá skaltu taka aukalega inn af þeim.
10. Njóttu þess að vera heilbrigð/ur
Ef þú breytir hugarfarinu þínu örlítið og leggur þig fram um að sjá jákvæðar hliðar tilverunnar þá verður þetta allt saman svo miklu auðveldara. Minntu þig á að þú átt skilið heilbrigði og það að vera heilbrigður er einfaldlega það besta í heimi, ég þekki það á sjálfri mér.
Að borða hollan og góðan mat sem líkaminn þarfnast og nýtir vel er undirstaðan fyrir heilbrigði okkar. Óhollur og næringarlaus matur getur hins vegar valdið þreytu og streitu, húðvandamálum, bólgusjúkdómum og alls konar öðrum veikindum.
Verum heilbrigð í desember og eigum frábær jól og áramót! 🙂
Margrét Gnarr, eða Magga Gnarr eins og flestir kalla hana, fæddist í Reykjavík árið 1989. Hún hefur alla tíð verið mikil íþróttakona. Byrjaði að æfa fimleika þegar hún var 5 ára og færði sig yfir í listadans á skautum þegar hún var 8 ára.
Þegar hún var nýorðin 14 ára byrjaði hún að æfa bardagaíþróttina Taekwondo og fór strax að keppa í Olimpískum taekwondo bardaga. Hún hefur unnið til margra verðlauna í Taekwondo en þegar hún var 21 árs ákvað hún að breyta aftur til og færa sig yfir í fitness. Magga keppti á sínu fyrsta móti í Nóvember 2011 og hefur varla stoppað síðan. Árið 2013 sigraði hún Heimsmeistaramótið í fitness og varð í kjölfari fyrsti IFBB atvinnumaður Íslands og keppir nú einungis á IFBB atvinnumótum.
Hún starfar sem einkaþjálfari og rekur sitt eigið þjálfunarfyrirtæki þar sem hún býður upp á fjarþjálfun, einkaþjálfun, námskeið og pósuþjálfun.
Meiri upplýsingar um hennar þjálfun finnur þú á www.margretgnarr.com
Magga hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist heilsu, bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Hún elskar einnig að syngja, hlusta á góða tónlist, horfa á gott sjónvarpsefni og vera í faðmi fjölskyldu og vina. Mottóið hennar er: „Dream big‘‘