Sérhver dagur er oft dýrmætari en við hugsum útí að morgni.
Sumir dagar eru pakkaðir af fyrirfram ákveðnum verkefnum sem þarf að leysa ekki seinna en strax, aðrir dagar líða hálf letilega áfram litlausir og atburðasnauðir.
Við ætlum okkur stundum að gera svo ansi margt – en svo verður okkur ekki mikið úr verki. Hve oft er það ekki sem við setjum okkur háleit markmið en skiljum svo ekkert í því hvers vegna okkur gengur ekkert að ná þeim?
Við sjáum breyttar aðstæður í hillingum, við hugsum og hugsum, skipuleggjum í huganum og setjum jafnvel eitthvað á blað – en síðan lítur frestunaráráttan við og þar með fjúka allar raunverulegar framkvæmdir út í buskann.
Hvað er okkur að yfirsjást? Hverju erum við að gleyma?
Getur verið að við séum að gleyma okkur sjálfum og þess í stað leyfum við utanaðkomandi aðstæðum að móta líf okkar um of?
Látum við okkur berast mótþróalítið áfram með straumnum án þess að spá fyrir alvöru í því hvort okkar daglega líf sé í raun okkar – það sem við viljum sjálf? Hvað varð um gildin okkar og gleðina? Tilhlökkunina um að fást við verkefni næsta dags, verja frítímanum við gleði og glaum í skemmtilegum félagsskap fjölskyldu og vina?
Oft er það aftur á móti svo að við sjáum miklu frekar hvernig aðrir ættu að breyta einhverju í fari sínu heldur en hverju við ættum sjálf að breyta. Við gleymum oft að líta ekki aðeins í eigin barm – heldur líka í eigin fjársjóðskistu. Hvaða hæfileikum býrð þú t.d. yfir sem þú ert alls ekki að nýta þér sem skyldi í dag? Hvað þykir þér skemmtilegast að fást við? Getur þú nýtt þér þessa vannýttu krafta þína til að láta drauma þína rætast?
Kannast þú eitthvað við þessar lýsingar? Er það ekki einmitt þetta sem gerist svo oft þegar sinnuleysið tekur völdin af hvaða ástæðu sem það nú er að það fer af stað. Ástæðurnar geta verið ótal margar en það sem skiptir mestu máli er að ranka við sér, gera sér grein fyrir aðstæðum og gera eitthvað róttækt í málunum.
Settu allt í gang
Vertu ekkert að velta þér um of upp úr því sem liðið er – settu frekar allt í gang til að breyta aðstæðum til betri vegar. Ýttu skýjahulunni til hliðar því þá sérðu til sólar.
1. Hvers saknar þú í daglegu lífi þínu? Skrifaðu niður allt sem þér dettur í hug í nokkrar mínútur.
2. Veldu sjö atriði af listanum og forgangsraðaðu þeim eftir mikilvægi.
3. Rýndu svo til gagns, – valdir þú þau atriði sem eru ÞÉR mikilvægust – eða valdir þú þau atriði sem þú taldir skynsamlegast að velja? Láttu þér nægja að vinna með eitt af þessum atriðum til að byrja með – það sem ÞÉR er mikilvægast til að auka vellíðan þína, hamingju þína og gleði.
4. Þegar þú ert pottþétt með aðstæður sem þú velur á þínum eigin forsendum, skrifaðu þá niður lýsingu á því hvernig þær verða þegar þær eru sem bestar, þ.e. eins og þú vilt.
5. Hvaða tvö skref getur þú tekið í dag til að færast nær því að breyta aðstæðunum til batnaðar?
Stundum færumst við of mikið í fang, við vitum svona nokkurn veginn hvað við viljum – en við gefum okkur ekki tíma til að vinna undirbúningsvinnuna sem skyldi, við eigum það nefnilega til að gleyma millikaflanum.
Stundum þarf ekki mikið
Það er ekki svo erfitt að greina stöðu dagsins í dag – og það er heldur ekki svo erfitt að sjá draumastöðuna í hillingum – en mesta erfiðið felst yfirleitt í því að bretta upp ermarnar, vinna sig í gegnum verkefnið, gera þær breytingar á daglegu lífi sem gera þarf. Stundum þarf ekki umfangsmiklar, tímafrekar eða dýrar breytingar til að gjörbreyta aðstæðum.
Oft er það aftur á móti svo að við sjáum miklu frekar hvernig aðrir ættu að breyta einhverju í fari sínu heldur en hverju við ættum sjálf að breyta. Við gleymum oft að líta ekki aðeins í eigin barm – heldur líka í eigin fjársjóðskistu. Hvaða hæfileikum býrð þú t.d. yfir sem þú ert alls ekki að nýta þér sem skyldi í dag? Hvað þykir þér skemmtilegast að fást við? Getur þú nýtt þér þessa vannýttu krafta þína til að láta drauma þína rætast?
Gefðu þér smá tíma fyrir þig í dag – eða í kvöld þegar allir hinir eru sofnaðir, finndu millikaflann! ☺
Gangi þér vel og njóttu þín sem best þvi þú átt það svo sannarlega skilið!
Jóna Björg Sætran
Námstækni ehf
www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!