Ísland hefur fengið inngöngu í eina stærstu og virtustu barþjónakeppni heims!
Þetta þykja stórtíðindi í veitingabransanum þar sem nýja kokteilbyltingin hófst fyrir einungis þremur árum eða þegar Slippbarinn opnaði á Marina hótelinu árið 2012 og nú er varla sá bar eða veitingastaður sem býður ekki upp á framandi kokteila sem eru unnir frá grunni.
Í Reykjavík eru mörg lúxushótel að opna þessi misserin svo að barþjónastéttin fer vaxandi með miklum metnaði og væntanleg keppni mun verða gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnugreinina.
Keppnin heitir World Class Bartending Competition og er mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að fá að taka þátt. Það þarf að uppfylla mörg skilyrði fyrir inngöngunni en Ísland er fámennasta þjóðin til þátttöku.
Fagmennska, skemmtun og upplifun í fyrirrúmi
Eingöngu er keppt með hágæða lúxusvörum og fersku hráefni og er fagmennska, skemmtun og upplifun í fyrirrúmi enda eru nútíma barþjónar sannir listamenn sem töfra fram upplifun í öllum skilningarvitum; bragði, sjón, lykt, heyrn og snertingu.
World Class keppnin hefur verið heimsmeistarakeppni síðan árið 2009 og er ekki einn viðburður heldur átta mánaða ferli í hverju landi og má líkja við háskólanám hjá barþjónum þar sem erlendir gestir koma yfir veturinn og eru með „Master Class“ námskeið og þjálfun.
Ekki að þessu hlaupið
Barþjónar þurfa að undirbúa sig gríðarlega vel, lesa sér mikið til og taka þátt í undankeppnum. Það er ekki keppt í stökum kokteil heldur er alltaf unnið út frá ákveðnu þema og við vinnum með nokkur þemu í vetur. Til dæmis aperatif / digestive (fordrykk/eftirdrykk) þar sem barþjónar þurfa að skilja hungur til að vinna með fordrykk og hvað líkaminn kallar á eftir mat. Önnur þemu eru ávextir og plöntur, drykkir með mat og svo framvegis.
Barþjónarnir eru gríðarlega spenntir! 35 hafa skráð sig til þátttöku frá 22 kokteilstöðum. Barþjónn sem vinnur þessa keppni verður „heimsþekktur“ í faginu og getur valið úr verkefnum á heimsvísu svo það er til mikils að vinna. Barþjónastarfið hefur sannarlega fengið uppreisn æru og í dag vilja margir gera þetta að ævistarfi.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=uZZOi2yvX-w[/youtube]
Allt að gerast í menningarborginni Reykjavík!
Síðustu tuttugu árin hefur ótrúlega mikið skemmtilegt verið að gerast í matarmenningu okkar Íslendinga en að mati margra erlendra ferðamanna er Reykjavík ein allra skemmtilegasta veitingahúsaborg Evrópu. Hér spretta staðirnir einn af öðrum og fjölbreytni er mikil, svo er það Kokkalandsliðið, Food and Fun og fleiri frábærir viðburðir.
Lokakeppnin fer fram á MIAMI!
Í World Class keppninni er mikil áhersla lögð á staðbundin hráefni, árstíðabundnar sveiflur og fleira sem mun gera barþjóna okkar meðvitaðri um hvað Ísland hefur upp á að bjóða.
Lokakeppnin fer svo fram fram næsta haust í MIAMI. Hún verður stórglæsileg, stanslausar upplifanir, allskonar þemu og dásemdir og mun íslenskur barþjónn fara út ásamt fylgdarliði sínu. Fyrir lokasprettinn fer hann þó í æfingarbúðir í Evrópu með sigurvegurum frá Evrópulöndunum og þeir æfa sig saman fyrir lokakeppnina. Þetta verður sannarlega spennandi og skemmtilegt!
Meðfylgjandi myndir voru teknar í HÖRPU þann 18 nóvember sl þegar keppendur voru kynntir til leiks. Eins og sjá má var stemmningin góð! Um 80 menn og konur mættu og bein útsending var á Stöð 2.
Harpan var upplýst sem aldrei fyrr, boðið upp á dýrindis kokteila úr uppskriftum frá 6 fyrri heimsmeisturum World Class keppninnar. Andri forstjóri Ölgerðarinnar bauð fólk velkomið og forseti borgarstjórnar, Sóley Tómasdóttir, sagði nokkur orð um mat og drykk í borgarmenningunni.
Flettið og gleðjist!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.