Violet og Finch er eftir Jennifer Niven og þegar er byrjað að gera kvikmynd eftir bókinni.
Unglingarnir Violet og Theodore Finch hittast við slæmar kringumstæður, efst í klukkuturni og eftir á er spurning hver bjargaði hverjum.
Finch er fríkið í skólanum hugsar um fátt annað en dauðann og mismunandi útgáfur af sjálfsmorðum. Violet er vinsæl en lifir í skugga sjálfrar sín eftir systir hennar lést í bílslysi.
Þau lenda saman í skólaverkefni þar sem þau verða að fara um fylkið og skoða merkilega staði og smám saman fara þau að breytast. Fríkið Finch leyfir sér að vera léttur og kátur og Violet kemst að því að hún hefur ekki gleymt hvernig á að hlæja.
Sorgin ræður ríkjum en ekkert er rætt
Undirliggjandi þættir eru þunglyndi og depurð, barsmíðar og heimilisofbeldi. Það er ekki talað um það berum orðum en gefið í skyn og þannig reynt að útskýra af hverju Finch er eins og hann er.
Fjölskylda hans er illa „fúnkerandi“. Pabbi hans kominn með nýja konu og nýjan son sem er ekki eins mikið frík og gamli sonurinn.
Mamma hans skugginn af sjálfri sér og ekki fær um að hugsa um neinn, systurnar tvær láta eins lítið fyrir sér fara og hægt er. Heima hjá Violet er það sorgin eftir systurina sem ræður ríkjum en þau ræða það ekki, ræða hana yfirleitt alls ekki og reyna að halda áfram með lífið.
Þarf meira inngrip?
Saman geta þau ýmislegt en er það nóg?
Getur áralöng depurð og þunglyndi horfið eins og hendi sé veifað eða þarf meira inngrip? Hvað gerist þegar þunglyndið tekur yfir? Er merkimiðinn um geðveiki sterkari en almenningálitið eða er hægt að ganga á móti því?
Þetta er bók sem er flokkuð sem „young adult“ og ég er alltaf jafn hissa á þessum flokkunum því þetta er bók sem á alveg eins erindi við fullorðna, þó fólkið sem bókin fjallar um sé ungt að árum.
Hún fær þrjár og hálfa stjörnu frá mér. Ég get ekki gefið henni meira því mér finnst aðeins vanta á dýptina en hún er rómantísk og mér fannst hún skemmtileg og fékk mig aðeins til að hugsa um það hvernig það er að vera unglingur í dag.
[usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.