Í dag eru liðin 100 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla en þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri auk vinnumanna, – kosningarétt og kjörgengi til alþingis.
Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895.
Það er sannarlega óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þessi góði dagur rann upp fyrir hundrað árum, eða árið 1915.
Íslendingar hafa átt bæði forseta og forsætisráðherra af kvenkyni og vart er sú staða til sem konur eiga ekki jafnan möguleika á að öðlast og karlar, þó stundum bendi flest til þess að enn þurfi konur að leggja harðar að sér til að ná sömu áföngum og bræður okkar og að sama skapi leyfist þeim talsvert minna.
Hvað mig varðar finnst mér að meira vægi mætti leggja á að karlar færu í hefðbundin kvennastörf. Til að mynda snyrtifræði, leikskólakennarann, hjúkrun og svo framvegis. Með því að hvetja konur alltaf áfram í karlastörfin er með óbeinum hætti verið að gera karlastéttum hærra undir höfði og það gengur ekki ef jafnréttið og aukin virðing fyrir konum á að nást.
„Öll störf eru þjónustustörf,” sagði eitt sinn góð og gáfuð kona við mig og það tel ég hverju orði sannara.
Að vera í stjórnunarstöðu hjá t.d. alþjóðlegu fyrirtæki er ekkert merkilegra en að vera í umönnunarstarfi á sjúkrastofnun í Reykjavík. Stjórnunarstöðum fylgir yfirleitt bara meiri fjárhagsleg ábyrgð og alltaf minni tími á heimilinu.
Þó peningarnir í vasann verði eitthvað meiri þegar þú vinnur stjórnunarstarf þá aukast skuldirnar yfirleitt til jafns og merkilegt nokk helst hamingjustaðan oft nokkuð svipuð hjá fólki þrátt fyrir að það fái ögn hærri laun.
Ég vann einu sinni á fjölmiðli þar sem ég hafði föst mánaðarlaun og fékk yfirvinnu ekki greidda þó ég ynni hana. Margir höfðu áhuga á að vinna sig upp til að fá einhverja millistjórnendastöðu. Það gildi líka fyrir aðrar einstæðar mæður sem unnu með mér.
Þær borguðu pössun fyrir krakkana sína svo að þær gætu unnið sig kauplaust “upp”. Ég fór alltaf heim klukkan fimm og lét þessar millistjórnendastöður mig litlu skipta. Ég setti það að vera með dóttur minni í forgang. Mig langaði það frekar en að verða stjórandi þarna. Innan tveggja ára hætti ég að vinna á þessum stað og það gerðu millistjórnendurnir reyndar líka. Bara aðeins seinna, – enda var þetta og vægast sagt ósanngjarn vinnustaður.
Fólk þarf að fá að forgangsraða eftir eigin höfði. Ef ég tel meiri lífsgæði fólgin í því að fá að vinna í stjórnunarstöðu en að koma snemma heim til að vera með börnunum mínum þá er það mitt val. Bæði karlar og konur ættu að hafa frelsi til að forgangsraða samkvæmt eigin gildismati án þess að vera dæmd fyrir vikið. Karl á að geta unnið sem leikskólakennari án þess að mæta fordómum frá kynbræðrum sínum og þó að kona læri pípulagnir og starfi svo við þær, þá er það ekkert merkilegra en ef hún væri hársnyrtir.
Í þessu samhengi legg ég áherslu á að það þarf að gera hinu kvenlega og kvenlæga hátt undir höfði.
Það þarf að eyða út lýsingarorðum eins og „Keyrir eins og kerling” – „Hleypur eins og stelpa”. Það þarf að eyða skinkufordómum og slutshaming. Snyrtivörur, tíska og hannyrðir eru ekkert ómerkilegri áhugamál en bílar, fótbolti og seinni heimstyrjöldin.
Það er bara fjandakornið ekkert að því að vera stelpa og stelpur eiga ekki að þurfa að verða “strákastelpur” til að öðlast virðingu. Á sama hátt á ekki að dæma kvenlegan karlmann með neikvæðum hætti. Varalituð skvísa á pinnahælum er jafn virðingarverð og haukfrán fótboltafrauka á flatbotna. Hið kvenlæga og kvenlega er flott og frábært.
Það þarf að upphefja gildi kvenna.
Félagsmótun, menningararfur, hormónar og hefðir virðast hafa gert konur mikið betri í sumu en karla. Það þarf að upphefja það sem við erum góðar í og hvetja karla til að vinna þessi hefðbundnu kvennastörf án þess að óttast fordóma. Það á að vera jafn æðislegt og merkilegt að vera karl í hefðbundnu kvennastarfi og það er æðislegt og merkilegt að vera kona í hefðbundnu karlastarfi.
Áfram jafrétti!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.