Fyrir einhverju síðan fór ég til Parísar en það er uppáhaldsborgin mín í öllum heiminum.
Ég ákvað að skoða aðeins í búðargluggana og sjá hvort þar væri ekki hægt að fá frábærar hugmyndir að flottum dressum. Málið var einfalt – evran stóð á þessum tíma sterk gagnvart krónunni svo ef ég vildi versla í alvörunni varð það að vera eitthvað eitt sem var klassískt og entist lengi.
Ég tók metróið inn á bestu götuna í bænum, rue du Faubourg St. Honoré í áttunda hverfi borgarinnar en þar liggja allar tískuverslanir sem varið er í.
Uppáhaldsverslunin mín Chanel. Þar fæst margt mjög fallegt svo ég leit þar inn. Í búðarglugganum voru til dæmis þessi bjútífúl stígvél upp á mið læri sem sögðu einfaldlega “sex” og verðið líka en þau kostuðu minnir mig 400.000 krónur. Ég var ekki tilbúin að fífla sjálfa mig algerlega upp úr skónum. Það verður að vera einhver glóra í innkaupum kvenna, eða hvað? Þess vegna fór ég af stað í annan leiðangur upp í 18. hverfi Parísar en það er á toppi borgarinnar og Sacré Cæur kirkjan trónir efst uppi á þessu hverfi.
Þar er urmull ódýrra skranbúða og þar má alltaf finna stælingar á hátískunni fyrir miklu færri peninga. Stundum fara hönnuðir líka í þetta hverfi til að fá hugmyndir að tískunni. Fólkið þarna er allt öðruvísi en í fínu tískuhverfunum, til dæmis er þar mikil og áberandi verslun með kynlíf, erótískir dansklúbbar eru út um allt og cancan show fyrir túrista draga að sér milljónir á ári hverju. Í 18 hverfinu er að finna urmul listamanna, dansara, túrista, vasaþjófa, hönnuða og svo slæðist einn og einn Íslendingur í leit að eftirlíkingu af Chanel stígvélum.
Þarna fundust líka stígvélin. Já, eldrauð og skjannahvít úr lakki! Mjög æsandi og alltof djörf því miður til að þau lentu í innkaupapokanum. En það var gaman að máta og skoða. Reyndar dettur mér í hug að í þessu tilviki hafi hönnuðir stóru tískuhúsanna fengið hugmyndina af uppháu stígvélunum beint úr exótískum dónakúltúr 18. hverfis? Ekki hika við að koma við í þessu exótíska hverfi, næst þegar þú skreppur til Parísar.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.