Þegar ég var yngri þá vann ég mér inn frekar mikið af tekjum sem ég veit ekki alveg hvað varð um… eða jú ég veit alveg hvað varð um þær en ég skil bara ekki af hverju mér fannst mikilvægt að eyða 20-30.000 krónum (sem var hellings peningur árið 2002) í Diesel buxur.
Athugið að ég átti ein tíu stykki af Diesel buxum og fór í klippingu og litun á tveggja mánaða fresti… sem kostaði aðrar litlar 20.000 krónur sem og fleira gjörsamlega ópraktískt og dýrt sem ég gerði á þessum tíma.
Í dag er ég því miður ekki að lifa þessu “góða lífi” og ráðstöfunartekjur mínar á mánuði eru oft hættulega nálægt andvirði einna Diesel buxna hérna í denn (…ég hef því miður ekki hugmynd hvað þær kosta í dag og hvort þær séu yfirletti seldar ennþá á Íslandi?).
Það virðist nefnilega vera að með aldrinum verður einhvernvegin erfiðara að spara, maður fer að leigja, kaupir sér bíl og þegar maður byrjar líka á svona fáranlegu eyðslufyllerí, eins og einkenndi mig fyrst þegar ég var að byrja að vinna, þá er erfitt að trappa sig niður eftir því sem ráðstöfunartekjurnar minnka og allt í einu er plúsinn kominn í mínus og þá fara hlutirnir að verða erfiðir.
Þegar það fór að bera á því hjá mér að ég var farin að klára ráðstöfunartekjurnar mínar tíu dögum áður en mánuðirinn kláraðist og ég var samt með yfirdrátt og kreditkort og allann pakkann, þá ákvað ég að taka mig saman í andlitinu og fara að spara… þessi ákvörðun var samt í byrjun meira tekin af neyð heldur en löngun.
Ég byrjaði að leita um allt að sparnaðarráðum en fann ekki neitt nema; Seldu gömlu fötin þín, farðu í ódýrara húsnæði, losaðu þig við bílinn, drekktu bjórinn heima o.s.frv.
En ég vil bara ekkert selja fötin mín og efast líka um að einhver myndi v þau ilja kaupa á það mikinn pening að það reddi mér einhverju meira en 10.000 kalli. Ég er í ódýrasta húsnæði sem völ er á og ég þarf bílinn minn vegna vinnu nema ég ætli að tapa dýrmætum 110 mínútum á dag í strætó sem er bara ekki að fara að gerast þegar maður er í 100% námi og 100% vinnu!
Á endanum fór svo þannig að ég fór að sanka að mér sparnaðarráðum sem virka fyrir fólk eins og mig og ég vona að einhver annar geti líka nýtt sér þessi ráð:
1. Finndu þér kærasta/u
Eins og ég hef skrifað hér inn á áður þá virkar mjög illa að vera einhleypur þegar maður er að spara þannig fyrsta verk til að spara er að ná sér í kæró, maður sparar í leigu og í mat og í bensín og bílakostnaði…og svo fer maður sjaldnar út á djammið. Þetta er hins vegar eitthvað sem tekur á að framkvæma, 26 ár án þess að neinn bíti á þetta gylliboð um sparnað er frekar sorglegt!
2. Þynntu handsápuna
Þegar þú kaupir þér handsápu taktu þá 2/3 af sápunni og settu í gamla handsápudallinn, fylltu svo upp í nýja gæjann með vatni, endurtaktu þar til sápan er búin en þá neyðistu víst til að kaupa meira. Passaðu bara að láta ekki renna hratt ofan í dallinn því þá freyðir bara út um allt og þú endar á því að spara ekki neitt!
3. Ein doppa dugar
Settu bara eina doppu af tannkremi á tannburstann þinn, þau eru að nota alltof mikið í tannkremsauglýsingunum, einmitt til þess að selja meira!
4. Ekki gefast upp á túpunni
Ekki gefast upp þegar þú heldur að meiktúpan…eða aðrar túpur eru tómar, þjösnastu smá á henni! Eftir að ég fór að spara endist hyljarinn minn ekki lengur bara í þrjá mánuði heldur endist hann í fimm! Þetta sparar mér alveg 8000 á ári því, já ég kaupi dýran hyljara þó ég sé að spara.
5. Gjörðu þeim kunnugt
Láttu alla í kringum þig vita að þú sérst að spara, fólk fer þá frekar að hringja í þig og biðja þig um að koma út í göngutúr, kíkja í bíó eða fara á kaffihús heldur en að fara að gera eitthvað enn dýrara. Svo einstaka sinnum er þér boðið að gera eitthvað dýrt af vinum þínum/fjölskyldu, sem er aldrei leiðilegt og þú getur þá hugsað með þér að þú gerir eitthvað fyrir þau til baka eins og að passa krakkana fyrir þau, eða að bjóða þeim til baka þegar fjárhagurinn er kominn í lag.
6. Ekki kaupa dýra drykki
Drekktu vatn með öllum mat – heilsusamlegt og kostar engan pening!
7. Lestu á verðmiðana
Kíktu alltaf vel á alla verðmiða í matvöruverslunum, til að vera viss um að verðmiðinn sem þú ert að lesa sé verðmiðinn sem á við þína vöru og til að bera saman hvað sambærilegar vörur kosta. Svo er líka margt sem er vitlaust verðmerkt, starfsfólk er svo í flestum tilfellum mjög liðlegt við að laga villurnar – ég veit þetta er ótrúlega leiðinleg regla!
8. Ekki kaupa nýtt fyrr en gamla er búið
Settu þér reglu þú mátt ekki kaupa þér nýtt naglalakk eða augnskugga áður en þú klárar einhvern gamlan, sama með varalit/gloss og aðrar litaðar snyrtivörur sem fara oft hægt. Bæði verðuru svo spennt að klára að þú verður alltaf fín og sæt plús þú ert nýtinn og lætur snyrtivörurnar ekki þorna upp áður en þú klárar þær.
9. Settu þér markmið!
Ég er t.d. að byrja áttunda mánuðinn í árs straffinu mínu í fatakaupum, flestir á Íslandi í dag eiga meira en nóg af fötum og ég er ein af þeim svo ég ákvað að þetta væri það sem ég ætlaði að halda aftur af mér með. Það er líka hægt að leika sér með þessi markmið t.d. setja reglu um að þú megir ekki kaupa föt í 6 mánuði nema þá í Kolaportinu eða Rauða Kross búðinni (sérstaklega gaman ef maður hefur ekki verslað þar áður) þá fer maður allt í einu að finna einhverja gimsteina sem maður hefði aldrei fundið annars og jafnvel að koma sér upp nýju ódýrara kaupmynstri.
Einnig má setja sér markmið um að fara ekki oftar út að borða en einu sinni í mánuði, kaupa sér bara skyndibita á föstudögum, fara út að hlaupa og æfa heima í stað þess að eyða í ræktina sem þú mætir aldrei í, kynna sér sparakstur, segja upp áskriftum af sjónvarpsstöðvum og tímaritum o.fl.
10. Trítaðu þig, bara þig
Passaðu að þú sérst alltaf með eitthvað eitt tiltölulega reglulegt sem þú gerir fyrir bara þig sem þú leyfir þér að eyða smá pening í. T.d. að prjóna, lesa bækur, elda fínan mat einu sinni í viku, fara í fjallgöngur eða stunda aðra útivist, hitta vinkonuhópinn eða eitthvað allt annað bara svo þú endir ekki á því að grotna úr leiðindum og eyða í eitthvað stórt af því það er svo leiðilegt að spara.
11. Byrja smátt
Mundu það að það að spara virkar alveg eins og aðrar lífstílsbreytingar, byrjaðu smátt! Það tók mig tvö ár að koma mér almennilega inn í það að spara og byrja að segja nei við hlutum sem ég vissi að ég hefði ekki efni á en mig langaði samt til að gera.
12. Gerðu það sjálf
Leitaðu að DIY myndböndum á netinu til þess að laga einfalda hluti sem þú þyrftir jafnvel annars að kalla á einhvern þjónustuaðila til að redda fyrir þig. Getur líka notað DIY myndbönd til að finna flott föndur, til að finna heimatilbúna maska, til að finna góðar uppskriftir (í staðin fyrir að kaupa uppskriftarbækur) o.fl.
13. Lækaðu ALLT
Like-aðu öll fyrirtæki sem þér líkar vel við á Facebbok eða skráðu þig á póstlista hjá þeim jafnvel þó þú hafir ekki einu sinni efni á því að versla hjá þeim í dag, allar útsölur og tilboð koma oftast fyrst fram á Facebook.
14. Haltu í háralitinn
Litaðu hárið þitt í tón sem er líkari þínum eigin svo þú getir látið líða lengra á milli litana eða jafnvel hætt að lita hárið – Þarna spararu og fylgir tískunni, náttúrulegir litir á hári eru mjög heitir!
15. Hvað kosta námsbækurnar á Amazon?
Berðu saman verðið á námsbókunum þínum við hvað þær kosta á amazon.co.uk, ég sparaði 10.000 kr. í bókakaupum á þessari önn og tel þar með tollinn!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.