Fyrir ekki svo mörgum árum takmarkaðist skilgreining okkar á heimilisofbeldi við sprungnar varir, marbletti og glóðaraugu en sem betur fer hefur skilningur almennings á birtingarmyndum ofbeldis farið vaxandi.
Árið 2015 stigu Bretar stórt framfaraskref þegar þau gerðu svokallað stjórnunarofbeldi, á ensku „coercive control“, að refsiverðu athæfi en það þýðir m.a að þolandinn þarf ekki lengur að sýna fram á að makinn hafi lamið hana eða eyðilagt hluti til að kæra um heimilisofbeldi sé tekin gild og nú eiga gerendur þar í landi allt að fimm ára fangelsisdóm yfir höfði sér gerist þeir sekir um að beita stjórnunarofbeldi.
Hvað er stjórnunarofbeldi?
Stjórnunarofbeldi er ekki er bundið við einangruð tilvik heldur er það stöðugt og stigmagnast eftir því sem líður á sambandið.
Munurinn á stjórnunarofbeldi og því sem við köllum andlegt ofbeldi er í grundvallaratriðum sá, að með andlegu ofbeldi er reynt að særa þolandann en með stjórnunarofbeldi er markmiðið alltaf að ná valdi yfir einstaklingnum og algjörum undirtökum í sambandinu.
Til að ná þessu markmiði reynir gerandinn að skerða frelsi og sjálfsvirðingu þolandans og brjóta manneskjuna niður til hlýðni og undirgefni í sambandinu. Ofbeldismaðurinn setur þá sambandið oft upp þannig að hann sé í einskonar foreldrahlutverki og hafi vit fyrir báðum aðilum í sambandinu.
Beitir aðferðum á víxl og færir áherslur
Athugaðu að öll þessi atriði sem eru talin hér upp eru dæmi stjórnunarofbeldi og að í sumum tilfellum er þessu beitt á víxl, þannig að ein áhersla stendur yfir í ákveðinn tíma og svo dregur úr því um leið og annað fær aðalfókusinn. Með öðrum orðum þá gæti hann gagnrýnt útlit þitt og vaxtarlag, eða samskipti við vini og fjölskyldu á einhverju tímabili en dregið úr því og fært áhersluna að fjármálunum þínum eða hversu lengi þú ert í ræktinni svo dæmi séu tekin. Ekki svo að skilja að gagnrýni á útlit og samskipti myndi hætta en það verður bara minna áberandi (til dæmis af því þú ert byrjuð að beygja þig undir stjórsemina á því sviði).
Dæmi um svona hótanir eru til dæmis að fara fram á skilnað, segja „öllum“ hvernig „þú ert í raun og veru“ og fleira í þessum dúr.
Ef þú kannast atriðin á þessum lista úr eigin sambandi þá eru yfirgnæfandi líkur á því að sambandið sem þú finnur þig einkennist af stjórnunarofbeldi. Og ef þér finnst þú „eiga það skilið“ að hann t.d. skoði símann þinn, finnist hann eiga rétt á kynlífi eða verði ergilegur þegar þú átt samskipti við ákveðna vini eða ættingja þá er mikilvægt að þú fáir utanaðkomandi aðstoð.
1. Ósanngjarnar kröfur
Hann gerir á þig kröfur sem þú getur hreinlega ekki, eða vilt ekki standa undir. Oftast fylgja margskonar hótanir, þrýstingur og í versta falli frelsisskerðing ef þú ferð ekki eftir þeim. Dæmi um svona kröfur er t.d. að þú hættir að drekka, hættir að fara út með vinkonum, takir meira og betur til, verðir að grennast, gangir í fötum sem honum finnast flott og ráðstafir peningunum þínum öðruvísi svo eitthvað sé nefnt.
2. Niðurlæging, einelti
Hann niðurlægir þig, til dæmis með því að kalla þig ljótum nöfnum og leggja þig í einelti. Sem dæmi gæti hann viljandi keypt handa þér föt sem þú passar ekki í (svo þú þurfir að grenna þig í þau), kallað þig hóru, ógeð eða öðrum ljótum nöfnum. Hann gæti líka gert lítið úr þér fyrir framan börnin, vini og kunningja til að láta þér líða illa með sjálfa þig. Hann gefur í skyn að þú vitir ekki sjálf hvernig þú virkar á annað fólk og að „allir“ sjái hvað þú sért til dæmis geðveik, rugluð, feit, sjúskuð os.frv… nema þú sjálf.
3. Hann reynir að stjórna rútínunni þinni
Hvort sem er að mæta í ræktina, hlaupahóp, fara í heimsókn til fjölskyldu eða vina, saumaklúbb… Ef ástandið er þannig að þér finnst þú alltaf eiga erfiðara og erfiðara með að sinna því sem þú varst vön að gera í þínu daglega lífi, af því honum mislíkar það, þá er það yfirleitt skýrt merki um að eitthvað alvarlegt sé að í sambandinu. Þú átt að geta haldið áfram með það sem gerir þér gott og lætur þér líða vel þó þú sért í sambandi.
4. Hótanir
Ef hann hótar þér og ógnar þegar þú ert ekki eftir hans höfði flokkast það undir stjórnunarofbeldi. Þetta getur líka átt við í kynlífinu. Dæmi um svona hótanir eru til dæmis að fara fram á skilnað, segja „öllum“ hvernig „þú ert í raun og veru“ og fleira í þessum dúr. Hann gæti líka hótað að hætta við að gera hluti sem þið eruð búin að ákveða að gera (etv ferðalög), selja eitthvað sem er þér kært og fleira í þessum dúr. Í stuttu máli þá reynir hann að kúga þig til að gera það sem hann vill að sé gert.
5. Stjórnar fjármálunum
Hann fylgist mjög grannt með því hverju þú eyðir og í hvað og skammar þig, reiðist eða verður „passive agressive“ ef þú ferð yfir mörkin sem hann ákveður að séu rétt. Stundum skammtar hann þér líka peninga, jafnvel þó það séu þínir eigin peningar.
6. Er strangur tímavörður
Hann fylgist grannt með því í hvað tími þinn fer, hvert þú ferð og hvað þú gerir. Hann gæti til dæmis gert kröfu um að þú sért sýnileg á SnapMap eða Friend Finder og/eða sent þér skilaboð og hringt ítrekað í þig til að fylgjast með þér. Stundum krefst hann þess að fá að sækja þig og skutla þér til þess að geta fylgst með ferðum þínum.
7. Tekur af þér símann og/eða hindrar ferðafrelsi
Ef hann tekur af þér símann eða breytir lykilorðum á tölvu eða iPad þannig að þú getir ekki haft samband við fólk þá skaltu hiklaust leita aðstoðar. Það sama á við ef hann tekur af þér bíllyklana eða reynir með einum eða öðrum hætti að koma í veg fyrir að þú sért frjáls ferða þinna.
8. Reynir að koma upp á milli þín og fjölskyldu þinna eða vina
Þetta er vel þekkt dæmi um stjórnunarofbeldi. Hann talar illa um marga vini þína og fjölskyldumeðlimi og lætur mjög skýrt í ljós að hann sé ekki hrifinn af þeim eða að þú hafir mikið samband við þau. Hvort sem það er að spjalla við þau á netinu, í síma eða að eyða tíma með þeim. Hann reynir að koma inn sektarkennd hjá þér yfir þessu og þú ferð smátt og smátt að reyna að fela samskipti þín þannig að hann viti ekki af þeim.
8. Skiptir sér af því hvað þú borðar
Hann hefur skoðanir á því hvað, hvernig og hvenær þú borðar. Tekur jafnvel matinn af þér, felur hann eða kemur í veg fyrir að þú borðir það sem þig langar í. Í þessu tilfelli skaltu strax leita aðstoðar.
9. Eyðir og eyðileggur það sem er þér kært
Hann eyðileggur hluti sem eru þér kærir eða felur þá fyrir þér. Sér í lagi gjafir sem hann hefur gefið þér, tekur þær til baka, eða eyðir bréfum og skilaboðum sem þig langar til að geyma. Hann gæti líka eyðilagt myndir og þessháttar, hent fötum sem þú ert búin að kaupa þér, skemmt hjólið þitt og fleira í þessum dúr.
10. Reynir að stjórna því sem þú gerir á samfélagsmiðlum
Hann fylgist með því sem þú gerir á samfélagsmiðlum: Skoðar skilaboð, hefur skoðanir á bæði myndum og statusum, fylgist með því hvað þú lækar og kommentar.
Hann hefur skoðanir á því hvað þú segir og gerir, hvernig þú orðar hlutina eða myndum sem þú setur inn og vill ákveða hverja þú samþykkir sem vini eða fylgjendur á Instagram. Hann gæti líka krafist þess að fá að vita öll lykilorðin þín og að fá að skoða símann þinn þegar honum dettur í hug. Þar skoðar hann myndir, símtalaskrá, skilaboð og allt hitt.
11. Er upptekinn af hefðbundnum kynjahlutverkum
Hann leggur áherslu á að konur eigi helst að vera heimavinnandi og að karlar eigi að sinna framanum. Þetta notar hann meðal annars til að réttlæta að þú ættir frekar að sinna heimilisstörfum á borð við tiltekt, þvott, matarinnkaup og eldamennsku af því karlar eru bara svo lélegir í því. Hann gæti jafnvel ýjað að því að þú ættir að hætta að vinna úti eða vinna bara hlutastarf til að geta verið sem mest heima.
12. Notar börnin gegn þér
Hvort sem það eru þín eigin börn eða hans þá gæti hann notað þau gegn þér. Talað um hvernig þú ert lélegur uppalandi fyrir framan þau og gert lítið úr þér við þau þannig að þau beri minni, eða jafnvel enga virðingu fyrir þér.
13. Gerir kröfur um kynlíf
Honum finnst hann eiga rétt á kynlífi og hefur hugmyndir um það hversu oft á að stunda það. Honum finnst hann jafnvel eiga kröfu á að kynlífið sé stundað með ákveðnum hætti, eða eins og honum líkar best (stellingar, föt, staðir og þh). Í sumum tilfellum heimta ofbeldismennirnir að fá að taka nektarmyndir og þá eru þær mjög oft notaðar gegn þolandanum sem hótun ef ekki er farið að hans vilja.
Í þessu áhugaverða viðtali er rætt við konu sem síðan skrifaði bók um reynslu sína af stjórnunarofbeldi. Í því kemur fram hversu leynt þetta fyrirbæri getur verið og hvernig það fer framhjá bæði þolandanum og þeim sem standa henni/honum nærri.
Fleiri greinar um ofbeldi í samböndum:
Britney Spears og feðraveldið
Ofbeldið í EXIT
Munurinn á heilbrigðu og óheilbrigðu sambandi
Að breyta sér fyrir makann
Grein um stjórnunarofbeldi í Psychology Today
Úlfur í sauðagæru – Umhyggjusami narsisistinn
ATH: Augljóslega getur svona ofbeldi líka átt sér stað í samböndum samkynhneigðra, og gerendur geta líka verið konur, en þar sem yfirgnæfandi meirihluti þolenda sem stíga fram eru konur þá tölum við um gerandann sem karl í þessari samantekt.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.