Að vera úti í náttúrunni er eitt af því sem er í uppáhaldi hjá mér en það er sá staður þar sem ég finn mestan frið og ró.
Þar er eins og allar áhyggjur verði eftir heima og ég er í núinu um leið og ég fer út undir beran himinn.
Ég sé að strákurinn minn, sem er þriggja ára, er líka mikið náttúrubarn. Að vísu held ég að flest börn séu náttúrubörn að einhverju leiti enda er útivera alveg frábær í hvaða formi sem er!
Það er ákveðið frelsi að vera í burtu frá öllu áreitinu og tengjast við stórfenglegu náttúruna okkar.
Í dag fórum við stráksi út í náttúruna, borðuðum nesti, hlustuðum á vindinn og horfðum á trén dansa við vindinn á meðan fuglarnir sungu fyrir okkur.
Að vera í skóginum er spennandi, það er nýr heimur, allskonar tré, könglar, laufblöð og greinar sem er hægt að nota sem stafi og áfram gæti ég talið.
Ég ákvað að taka saman nokkra leiki fyrir mig og strákinn minn og aðra sem vilja koma með okkur til að geta leikið saman úti í náttúrunni og ákvað að deila nokkrum þeirra með ykkur.
Ætli regla númer eitt sé ekki að setja símann frá okkur, skilja hann eftir í bílnum ef það er hægt. Það er hægt að taka með smá nesti og njóta tímans saman. Það góða við að fara svona saman er að þá verður svo auðvelt að gefa við börnunum fulla athygli, það er enginn þvottur að bíða eða tölva að trufla. Klæðum börnin og okkur sjálf í föt sem mega verða drullug og skítug. Skemmtun okkur svo með þeim.
12 leikir í náttúrunni
1. Fjársjóðsleit
Krakkar elska að finna og ná í allskonar hluti. Það eru svo margir hlutir sem er hægt að finna í skóginum, t.d. lauf, ber, villt blóm eða trjágreinar af öllum stærðum.
Taktu poka með og safnið „fjársjóðnum“ í poka og takið með heim.
2. Gerið tónlist í skóginum
Það er hægt að gera allskonar læti, krakkar elska að fá að hafa læti og í skóginum má það, takið upp allskonar ólíka hluti og búið til tónlist með því að slá því í tré, steina eða annað. Hvers konar hljóð og læti geta börnin búið til – og foreldrarnir líka?
3. Klifurleikir
Það getur verið svo gaman að fá að klifra, börn eru ótrúleg, þau geta klifrað og leikið sér endalaust mikið. Það þarf bara að passa að það sé öruggt að klifra og hjálpið þeim. Klifrið yfir trjádrumba eða annað sem er hægt að klifra yfir, það er gott fyrir þau til að læra að halda jafnvægi.
4. Feluleikur
Það þekkja allir feluleik, þessi leikur hefur verið til í svo langan tíma og eiginlega allir hafa gaman af honum, hvaða aldur sem er. Það getur verið gaman að fara í þennan leik enda er nóg af hlutum í náttúrunni til að fela sig á bakvið.
5. Knúsið tré
Leitið að stóru tré sem þið getið knúsað saman með því að halda höndum saman í kringum það, ef þið finnið það ekki er líka gaman að leita bara að því. Ef þið finnið það þá getið þið rætt hvernig er að knúsa tré eða giskað hversu marga þarf til að knúsa það áður en þið byrjið.
6. Leit að hlutum
Allir fá það verkefni að finna ákveðinn hlut og koma með aftur á byrjendareit. Hluturinn má vera hvað sem er sem er hægt að finna úti. Ef börnin eru of lítil er hægt að vera tvö og tvö saman og það getur líka oft verið skemmtilegra.
7. Takið myndir
Takið myndavélina með, leyfið börnunum að taka myndir af öllu sem þeim finnst áhugavert, hvort sem það eru skordýr, blóm eða flott tré – eða ykkur sjálfum.
8. Leit að dýrum
Það leynast stundum allskonar dýr í skóginum. Á Íslandi kanínur og allskonar fuglar, og á sumrin skordýr líka… farið í leit að dýrunum og dáist að þeim.
9. „Ólympíuleikar” í skóginum
Það er hægt að útfæra þetta á allskyns vegu. Þetta þarf ekki að vera keppni nema þið viljið. Kannski eiga bara allir að hoppa á milli steina, halda jóga stellingu í ákveðinn tíma, eða fara í kapphlaup og langstökk. Hvað sem ykkur dettur í hug!
10. Sögustund í skóginum
Flest allir krakkar elska sögur og finnst líka mjög gaman að segja sögur. Þið getið hjálpað þeim ef þeim finnst það erfitt eða sagt sjálf sögu, eða gert öll saman sögu en þá er skipst á og allir segja smá og svo er farið hringinn.
11. Labbið eins og dýrin
Ef þið eruð að ganga í skóginum getur verið gaman að hver og einn fær að velja dýr til að líkja eftir og allir taka þátt. Til dæmis er hægt að segja að nú eigi allir að labba eins og skrímsli, allir eiga að labba eins og kengúra og svo framvegis. Þetta getur verið mjög skemmtilegt.
12. Grípið laufblöðin
Ef það er vindur úti þá getur verið gaman að reyna að grípa laufin sem fjúka af trjánum, best er auðvitað að vera í þessum leik á haustin þegar laufin eru farin að falla af trjánum.
Vonandi hafið þið jafn gaman af þessu eins og við!
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.