Ef þú veist ekki hvar á að finna mig, prófaðu þá að leita að mér í Ikea. Þar gæti ég léttilega haldið mér vakandi í 1001 nótt við að skoða fallega hönnun, sniðugar lausnir fyrir heimilið, uppgötva sífellt eitthvað nýtt og og aftur nýtt.
Það besta er að í Ikea kaupir maður í alvörunni því vörurnar eru ekki bara fallega hannaðar, heldur eru verðmiðarnir líka sérlega vel hannaðir og passa við fjárhag fólksins en það var frábær hugmynd sem skapaði IKEA sérstöðu þegar þau voru að byrja.
Til að halda vöruverði niðri og lágmarka flutningskostnað var ákveðið að flytja vöruna inn, ósamsetta í pakkningum. Neytandinn kaupir hana þannig og púslar saman sjálfur.
Snillingurinn sem stofnaði þennan heimsins stærsta vörurisa árið 1943 var 17 ára gamall Svíi, Ingvar Kamprad.
IKEA-nafnið er samsett úr upphafsstöfum hans; IK.
Síðan bætti ungi maðurinn stöfunum E og A við, en Ingvar ólst upp í Elmtaryd og fór í sunnudagsmessuna í Agunnaryd kirkju. Ikea-lógóið er áberandi í sænsku fánalitunum og alltaf haft stórt svo kúnninn eygi það langar leiðir. Fyrsta IKEA búðin opnaði árið 1958 í Svíþjóð og kom til Íslands árið 1981. Þá var ég fimm ára og fékk bleik gúmmístígvel í Hagkaup.
Og það er einmitt Hagkaupsfjölskyldan sem á og rekur draumalandið IKEA í dag og þau gera það vel. Svo vel að verslunin er griðarstaður margra sem hafa áhuga á fallegum formum og hönnun en vilja jafnframt borga sanngjarnt verð.
Dæmin sanna að smekkvísi felst ekki í dýrum smekk heldur vönduðum og smart. Enginn sér muninn á fokdýru og ódýru ef hlutir eru paraðir saman af kostgæfni.
Nýlega fletti ég ítalska Elle Decoration þar sem var heill þáttur um stílhrein húsgögn frá Ikea og mig langaði hreinlega í allt. Á svoleiðis stundum lygni ég aftur augunum og ímynda mér að ég sé komin í Ikea, byrjuð að versla eitthvað fallegt, eitthvað smart… eitthvað sem fær mig til að iða af tilhlökkun og aftrar mér frá svefni. Rétt eins og ævintýrin í 1001 nótt.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.