Þú hefur gert það, vinkona þín hefur gert það, meira að segja ég hef gert það. Sent þetta sms sem þú svo innilega vildir hafa sleppt að senda daginn eftir tryllt kvöld á djamminu nú eða bara eftir rauðvíns sull ein heima með sjálfri þér.
Það eru til nokkrar gerðir af þessu sms-i. Hér eru þau 10 algengustu sem þú ættir að forðast að senda.
- “Ég sakna þín” til fyrrverandi. Það eru engar líkur á að eitthvað gott komi út úr þessu sms-i nema að líf þitt sé rómantísk gamanmynd og þú sért Kate Hudson í dulargervi. Þið hættuð ekki saman að ástæðulausu. Vonandi sendir hann þér ekkert til baka og vonandi þarftu aldrei að rekast á hann aftur svo að þú getir látið eins og þú hafir aldrei sent þetta sms. Baaa, af hverju hefur hann enn ekki svarað?!!?!
- “Langar þig að kíkja á mig?” – þú veist, til að gera það. Að vera dauðadrukkin getur hjálpað þér að losa um hömlurnar en það gerir þig hörmulega í rúminu. Ef maðurinn kemur í heimsókn þá er þín eina von að hann sé eins drukkinn og þú. Annars ert það bara þú sem ert hálf slefandi, með hálf augun opin að skella upp úr í miðjum klíðum að ástæðulausu.
- “Ég elska þig” til þess sem þú ert að deita. Það er í lagi ef þið hafið verið að hittast í langan tíma, það er jafnvel sætt en ekki svo mjög ef þið eruð rétt byrjuð að hittast og þið hafið ekki einu sinni sagt það við hvort annað í persónu enn þá. Hvað ef hann sendir það sama til baka? Hvað ef hann gerir það ekki???!!?
- “Sigrún er svo leiðinleg” til Sigrúnar. Þú ætlaðir að senda þetta sms til Snædísar en þú varst að hugsa um Sigrúnu svo þú smelltir óvart á hennar númer.
- “Hvað ertu að gera?” klukkan þrjú um nótt til einhvers sem þú hefur aldrei verið á fótum með að nóttu til. Ég skal segja þér hvað viðkomandi er að gera. Sofa. Eða að dæma þig. Eða sofa, svo dæma þig. Eða drekka, svo sofa, svo dæma þig. Þú skilur hvert ég er að fara með þetta.
- “Förum saman í brunch á morgun!” Að bjóða einhverjum eitthvert þegar þú ert undir áhrifum, sama hvert. Slæm hugmynd.
- “Líf mitt er ömurlegt. Ég er svo þunglynd. Ég ætti að segja upp vinnunni og flytja aftur heim til pabba og mömmu.” Ef þú sendir sms-ið til vinkonu máttu búast við að hún hringi í þig daginn eftir til að athuga hvernig þú hafir það. (Og auðvitað er allt í best lagi. Þú hefur ekki einu sinni hugmynd um hvað varð til þess að þú sendir þetta sms). Ef þú sendir sms-ið til foreldra þinna gætirðu átt von á pabba þínum berjandi á útidyrahurðina þína daginn eftir og flutningabíl í innkeyrslunni.
- “Flytjum inn saman!” Of fljótt, of fljótt, of fljótt!! Þar að auki hefur hann hörmulegan smekk á húsgögnum. Þessi svarti leðursófi, úff!!
- “Við ættum að taka okkur pásu”. Þú varst bara pirruð! Þú meintir þetta ekki. Tja, kannski smá, en það er flóknara en svo. Þetta er ekki að hjálpa þér í þynnkunni.
- “Ég þarf að segja þér dálítið”. Að létta á sér virðist alltaf vera svo góð hugmynd þegar þú ert drukkin. En veistu hvað? Það er það ekki.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.