Það getur verið stórskrítið fyrir íslenskar konur að vera á lausu. Aðallega af því hegðun og misskilningur íslenskra karlmanna á eðli kvenna kemur svo ótrúlega á óvart.
Þessar lýsingar eru allar fengnar frá fyrstu hendi og útkoman – Öfugmæli um árangur í ástarlífinu fyrir karlmenn. Byrjum á starálfi…
1. Starálfur
Starðu á hana í hvert sinn sem þú sérð hana, hún mun vera upp með sér, hún þráir þessa athygli, hún mun koma til þín á endanum, vertu þolinmóður.
Ertu eitthvað sækó? Veistu hvað það er óþægilegt að einhver starir á mann? Jafnvel þótt henni hafi fundist þú áhugaverður eða sætur áður en þú fórst að stara á hana þá ertu alveg að fara með það. Stelpur vilja ekki að það sé starað á þær. Ef þú nærð augnkontakt við hana, brostu eða segðu hæ, ekki glápa eins og eldgömul sápa, það er krípí. Einstaka augnsamband og vinalegt viðmot er næs, en starálfur er það ekki!
2. Má ég kyssa þig?
Farðu upp að henni og segðu henni að hún sé sæt, ef hún segir „takk“ þá getur þú spurt hana hvort þú megir kyssa hana.
Halló? Í hvaða heimi lifir þú? Ef hún segir „takk“ þá er það vegna þess að hún er kurteis. Þetta er í fyrsta lagi ekki góð leið til að kynnast stelpu en ef þér finnst hún sýna áhuga með viðmóti sínu, (hún brosir, er upp með sér eða horfir á þig eins og hún sé að bíða eftir hvað þú segir næst) talaðu þá við hana. Spurðu hana hvað hún heitir, gerir, byrjaðu samtal… Mér er sama þó þú lítir út eins og Brad fokking Pitt, þú labbar ekki bara upp að stelpu sem þú þekkir ekki og biður um að fá að kyssa hana. Það er óvirðing og ekki líklegt til árangurs.
3. Lærðu að taka höfnun
Þú ert búinn að vera spjalla við stelpu og hún er mjög næs og skemmtileg, þú spyrð hana hvort hún vilji fara með þér á stefnumót en hún neitar. Ekki hlusta á það, haltu áfram að reyna, þér mun takast að sannfæra hana um ágæti þitt og henni mun snúast hugur.
Ef stelpa sem er næs við þig hefur ekki áhuga á að hitta þig þá er hún ekki hrifin af þér og hún mun ekki verða hrifin af þér alveg sama hversu mikið þú reynir að sannfæra hana, það mun ekki virka. Það sárnar öllum að vera hafnað en taktu því með reisn og kannski, fyrst hún er svona næs gætir þú leyft blóðinu að flæða úr typpinu upp í heila og eignast góða vinkonu? Konur eru líka vinir.
4. Typpamyndakallinn
Þú ert skotinn í stelpu, skrollar niður á fyrsta daginn sem hún byrjaði á Instagram, ímyndar þér ykkur í heitu kynlífi og verður harður, auðvitað er hún að hugsa það sama, hana myndi dauðlanga í þig, sérstaklega ef hún sæji þitt mikilfenglega harða typpi. Já! Sendu typpamynd!
Nei, bara NEI!! Undir engum kringumstæðum kann stelpa að meta það að fá óumbeðna typpamynd, ef hún hefur ekki beðið þig um typpamynd þá vill hún alls ekki typpamynd og ef þú sendir þessa mynd þá mun hún mjög líklega finnast þú viðbjóðslegur og fá æluna upp í kok við tilhugsunina um þig. Ekki nóg með það… hún mun segja öllum vinkonum sínum frá því hvað þú ert krípí.
5. Hey þú! Flottur rass!
Þú sérð sæta stelpu úti að skokka, hún er með fullkominn stinnan rass sem dúar upp og niður þegar hún hleypur. Kallaðu endilega eitthvað á eftir henni, láttu hana vita hvað hún er með sætan rass, hún mun kunna að meta það, hún lifir fyrir svona athygli og hrós.
Æj plís, við erum manneskjur. Það væri næs að fá að fara út að skokka í friði, fara út að skokka án þess að vera hugsa um útlit og kynþokka, fá að vera í eigin heimi án þess að hugsa um karlmenn sem einhver rándýr sem geta ekki látið okkur í friði, án þess að vera spá í það hvort hlaupabuxurnar sem okkur finnst þægilegastar séu of þröngar og geri afturendann kynþokkafullan, án þess að hafa áhyggjur af því að út úr runnunum stökkvi einhver á okkur og reyni að nauðga okkur. Kattarköll eru ekki kúl, við verðum ekki upp með okkur, alls ekki. Okkur finnst við aftur á móti hvergi óhultar fyrir ókunnugum karlmönnum þegar það er gargað á okkur upp úr þurru, hugsaðu um okkur sem dætur og systur. Ekki gaman ef ókunnugir karlar hrópa á eftir þeim, er það nokkuð?
6. Dansfíflið
Drekktu í þig kjark og farðu upp að henni þar sem hún er að dansa við vinkonur sínar. Gríptu um mjaðmir hennar sem vagga til og frá í kynþokkafullum dansi, bara fyrir þig.
Þetta er kynferðisleg áreitni! Konur fara ekki endilega út að dansa til að laða að sér karlmenn. Þær fara oftast út að dansa því þeim finnst gaman að dansa. Ef þú hefur áhuga á henni þá getur þú lesið í aðstæður. Reyndu að ná augnsambandi, ef hún brosir til þín eða sækir tilbaka til augna þinna þá er möguleiki að hún hafi áhuga, ef hún hinsvegar lítur undan og forðast augu þín þá hefur hún ekki áhuga, og já stelpur ákveða það gjarna á fyrsta augnabliki. Ef þú nærð ekki augnsambandi má reyna að dansa nálægt henni og athuga hvort hún sýnir þér áhuga eða hefja við hana samræður þegar hún fer á barinn eða sest næst niður, en ekki stara, ekki dansa uppvið hana, ekki vera krípí, gefðu henni það pláss sem hún þarf og vil.
7. Togaðu í hana
Þú sérð stúlku drauma þinna spjalla við vinkonur sínar, þú ferð upp að henni og spyrð hvort hún vilji spjalla við þig en hún neitar. Ok, gríptu þá í handlegg hennar og reyndu að toga hana til þín, henni mun snúast hugur ef hún bara heyrir hversu frábær gaur þú ert.
Þarf ég í alvöru að hafa þetta dæmi hérna? Er ekki augljóst að þetta mun ekki virka? Ég vildi að þetta væri ekki að gerast í alvöru en því miður þá er þetta mjög algengt.
8. Reyndu bara SAMT við hana
Þú rekst á áhugaverða stelpu á Facebook, sendir henni vinabeiðni sem hún samþykkir og þú sérð þá að hún er í sambandi en allt við hana, það sem hún deilir og segir og útlit hennar höfðar til þín, þið eruð eins og búin til fyrir hvort annað, ef hún myndi bara kynnast þér þá myndi hún hætta með þessum glataða gæja svo þú sendir henni skilaboð og spyrð hvort hún sé ástfangin af manninum sínum eða kannski til í að kynnast þér betur.
Þú átt bágt! Stelpur samþykkja ekki bara menn sem vini á FB út af hafa kynferðislegum áhuga, við erum manneskjur, við höfum áhuga á að kynnast öðrum manneskjum.
Ef við erum skráðar í sambandi á Facebook þá fokkar þú ekki í því, hún er ekki að hugsa það sama og þú, þú lifir í ímynduðum heimi, ert sennilega með vott af mikilmennskubrjálæði líka að telja þig yfir kærasta hennar hafinn eða að þú sért lausn allra hennar vandamála (sem hún er sennilega ekki einu sinni að glíma við nema í þínum ímyndunarveika haus), þú þarft að fara til sálfræðings. Splæstu í það.
Giftir menn sem sjá ekki hringinn sinn
9. Hæ litla!
Þú ert kynntur fyrir sætri stelpu, þér finnst hún svo lítil og sæt að þú ákveður að lyfta henni upp, það er sniðugt, hún hefur örugglega gaman af því!
Nei! Stelpum finnst ekki gaman að vera lyft upp! Þær eru ekki börn, þeim finnst niðurlægjandi að vera lyft upp og sveiflað eitthvað, þeim finnst þetta ekki merki um karlmennsku þína heldur vandræðalegt áreiti og áminning um að þær eigi ekki sinn eigin líkama. Það er frelsissvipting að lyfta konu upp og sveifla henni ef hún hefur ekki beðið þig um að gera það. Meira hér um þjáningar lágvaxinna kvenna.
10. Hvað tekurðu á tímann?
Þú hittir áhugaverða konu, þér finnst hún klár og hæfileikarík en ert líka heitur fyrir henni. Þú ákveður því að bjóða henni vinnu eða fara gera eitthvað verkefni með henni til að kynnast henni betur.
Never mix business with pleasure! Konum finnst mjög niðurægjandi þegar þær fatta að karlmaður hafi stofnað við þær viðskiptasamband undir fölskum forsendum. Þeim finnst gert lítið úr hæfileikum þeirra og getu þegar þær komast að því að maðurinn sem þær eru að vinna með eða fyrir hefur rómantískan eða kynferðislegan áhuga á þeim og þær neyðast nú til að eiga samskipti við vegna vinnu.
R.E.S.P.E.C.T
Strákar þetta snýst um virðingu, þetta er ekki flókið, virðið konur, virðið þeirra rými, virðið þeirra líkama, ekki koma við þær án þess að þær biðji um það, ekki ryðjast inn á þeirra rými óbeðnir, ekki stofna samband við þær á fölskum forsendum, ekki reiðast þeim ef þær hafa ekki sama áhuga á ykkur og þið hafið á þeim, komið fram við konur sem þið hafið áhuga á af sömu virðingu og þið mynduð vilja að menn kæmu fram við mömmu ykkar, systur og dóttur. Það sem getur verið sætt og sexý þegar þú ert í gagnkvæmu ástarsambandi er það ekki áður en til þess sambands er stofnað. Þá er það einfaldlega bara krípí.
PS. Ég er ótrúlega til í að heyra sögur af Tinder ef þú átt einhverjar góðar… sendu á pjattrofurnar@pjattrofurnar.is
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.