Kannt þú að fara með peninga? Það er því miður ekki mjög líklegt, við kunnum það fæst enda flestir sem hugsa ekki marga leiki fram í tímann. Þá sérstaklega hér á landi.
Eftirfarandi eru 10 skotheld ráð til að verða aldrei múruð og loðin um lófana.
1. Gerðu alltaf ráð fyrir að í framtíðinni verði tekjur þínar hærri en tekjurnar sem þú ert með í dag.
2. Vertu dugleg/ur að kaupa hluti á raðgreiðslum.
3. Kláraðu námið seint og einbeittu þér að því að fá ekki meira en sex í hverju fagi, helst fimm. Best væri ef þú myndir alveg sleppa því að fara í framhaldsnám, fá þér bara vinnu á bensínstöð eða reyna að hasla þér völl sem Herbalife sali. Einnig væri flott að fara í eitthvað hefðbundið kvennastarf. Þau eru aldrei vel launuð.
4. Fyrir þér hefur orðið dráttarvextir eitthvað með kynlíf eða gelgjuskeiðið að gera.
5. Taktu áhættufælni alltaf fram yfir áhættusækni.
6. Vertu illa haldin af merkjasnobbi, með útlitsþráhyggju og lélega sjálfsmynd.
7. Taktu eins löng neyslulán og þú kemst upp með (enda er greiðslubyrðin svo miiiiklu lægri þegar maður er í tuttugu ár að borga af jeppaláninu… og skítt með uppsöfnuðu vextina).
8. Láttu yfirdráttinn reddessu!
9. Ekki pæla neitt í vöxtum og forðastu helst að opna gluggapóst.
10. Ekki leggja fyrir eða safna peningum og ef þér skyldi detta í hug að gera það, mundu þá að það er alltaf best að byrja þegar þú átt fyrir því, sem verður ALDREI í þínu tilfelli.
10 leiðir til að eignast peninga.
1. Náðu þér í góða menntun, leggðu hart að þér, fáðu góðar einkunir og farðu svo í framhaldsnám þar sem þú heldur áfram að fá góðar einkunir. Veldu eitthvað sem þú hefur ástríðu fyrir.
2. Vaknaðu snemma á morgnanna og skokkaðu eða syntu til að koma lagi á hausinn, þetta gera tölvunördin í Kaliforníu sem í dag eru ríkustu menn og konur heims. Bill Gates sefur ekki til hádegis.
3. Temdu þér aga í vinnubrögðum og dagsskipulagi. Lestu blöðin, fylgstu sérstaklega vel með öllum fréttum af kaupahéðnum og viðskiptamógúlum og athugaðu hvort eitthvað sé hægt að læra af þeim.
4. Ekki vinna hjá ríkisstofnun.
5. Lærðu að hlusta þegar aðrir tala og ekki álykta að þú vitir hvað fólk ætlar að segja næst.
6. Gefðu af þér. Þegar þér er boðið í mat þá kemurðu með rauðvín eða súkkulaði og auðvitað gefurðu knús og hrós eins óspart og þér er unnt.
7. Finndu þér góðan endurskoðanda og lærðu að skilja og tala skattamál.
8. Mundu að hugurinn er eins og fallhlíf: hún virkar best ef hún er opin.
9. Temdu þér hófsemi í neyslu og vendu þig á ákveðnar rútínur í þeim málum. Til dæmis er alltaf gott að kaupa ákveðnar klassískar flíkur á útsölum.
10. Byrjaðu að leggja fyrir um leið og þú byrjar að vinna svo að að margföldunaráhrifin vinni sem best með þér (en ekki gegn þér eins og þegar þú tekur lán á löngum tíma).
Dæmið er svona:
Jón og Gunna eru tvíburar. Að námi loknu byrjar Jón að leggja fyrir þúsundkall á ári í vísitölusjóð í alls átta ár, eða þar til þau eru þrítug. Þá hættir Jón að leggja fyrir en Gunna tekur upp þráðinn og byrjar þar sem Jón hættir, með þúsundkall á ári. Gunna safnar miklu lengur, eða í þrjátíu ár, eða þar til bæði eru sextug. Ef bæði eru með sömu ávöxtun á sparnaðinum þá á Jón samt hærri upphæð þrátt fyrir að Jón hafi bara lagt fyrir í átta ár en Gunna þrjátíu.
Pældu í því!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.