Hrafnhildur sendi okkur þetta lesendabréf en hún er með öllu heldur ósátt við amerísku siðina á Íslandi:
Ég hef alltaf verið frekar mikil þjóðremba í mér, alltaf verið mjög stolt af Íslandi og þeim hefðum og venjum sem tíðkast hérna. Þessvegna finnst mér leiðinlegt að sjá þegar amerískar hefðir eru farnar að troða sér inn dagatalið hjá okkur og yfirskyggja okkar eigin.
Þar er fremstur í flokki Valentínusardagurinn. Við eigum séríslenskar útgáfur af þessum degi sem eiga sér stað á svipuðum tíma, nema okkar útgáfur eru að mínu mati flottari af því það er einn dagur fyrir hvort kyn: Bóndadagurinn og Konudagurinn!
Bóndadagurinn er fyrsti dagur þorrans.
Á þessum degi eigum við stelpurnar að stjana við mennina okkar, gefa þeim blóm, elda fyrir þá og dextra þá algjörlega þar til þeir eru komnir í nirvanskt (heimatilbúið orð) hugarástand. Um að gera að tríta þá eins og prinsa, því ekki langt undan er konudagurinn- fyrsti dagur Góu- og ef karlinn gleymir honum, þá er trítment okkar við kallana á bóndadaginn sá mælikvarði sem stærð gjafabréfsins á góðmennsku karlsins næstu daga/mánuði verður ákveðið útfrá!
Þessir tveir dagar eru alltaf einhversstaðar í kringum 20 janúar og 20 febrúar. Það er ekki fyrr en seinustu ár sem ameríska frekjan kennd við Valentínus hefur troðið sér þarna inn á milli (14 febrúar) í íslensku þjóðfélagi og íslenskar blómabúðir farnar að básúna þennann dag í hástert til að fá að láni „þriðja í blómasölu“.
En viti menn… Viku á eftir Valentínusardeginum er konudagurinn alræmdi og eftir að Valentínusardagurinn fór að festa rætur hér á landi hafa karlmenn dregið upp herör…
Þegar kemur að konudeginum, deginum okkar, þá er allt púður úr grey köllunum og þeir kannski kippa með sér birkigrein (sem á þessum tíma árs er yfirleitt berstrípuð af öllu laufi) eða afleggjara af aloe vera plöntu handa okkur bara til að sýna lit, enda búnir að eyða öllu sínu púðri í að vera rómantískir á Valentínusardaginn!
Hvernig væri nú að viðhalda bara okkar stórskemmtilegu alíslensku hefðum og leyfa amerískum hefðum bara að halda áfram að vera amerískar?
Kveðja, Hrafnhildur Viðars!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.